Alfa í netheimum

Tuesday, November 21, 2006

Dúna núna

Erum búin að lenda í ótrúlegustu ævintýrum með gistingu. Héldum að við hefðum dottið í lukkupottinn því það tókst að redda fyrir okkur íbúð með öllu. Ég brunaði á staðinn og tók íbúðina án þess að skoða hana fyrst. Í ljós kom að þetta var ósamþykkt íbúð og hálfgerð brunagildra. Við vorum svo lukkuleg að geta hent þvotti í þvottavél, en í ljós kom að afrennslið af vélinni lenti í klósettvaskinum sem var lítill. Þannig að þegar þvottavélin dældi af sér flæddi uppúr vaskinum og rafmagnsleiðslur voru líka eitthvað skrítnar. Ekki nóg með það heldur var íbúðareigandinn á efri hæðinni geðill og leiðinleg. Hún fékk áfall af því að Sigmar lagði bílnum sínum fyrir aftan bíl dóttur hennar og það var dauðasynd og mikið æsingamál að hafa bílastæðamálin í lagi. Síðan fórum við að hugsa. Svona tökum við á móti erlendu vinnuafli og látum það hýrast í ósamþykktum holum víð á dreif um bæinn. Myndum við vilja að það væri svona komið fram við okkur fjarri heimalandinu, nei aldeilis ekki. Við bara pökkuðum saman og fórum á Dúnu og erum þar núna :-)

Saturday, November 18, 2006

Allt á hvolfi


Allt er á hvolfi í íbúðinni hjá okkur. Iðnaðarmennirnir hafa verið mjög duglegir nema hvað múrarinn stakk af til Frankfúrt og ég veit ekkert hvenær hann kemur til baka! Málarinn kemur í dag og byrjar að mála og parketmaðurinn kemur eftir helgina. Þetta verður ekkert smá flott, en hörmung meðan á þessu stendur. Síðan kemur InnX eldhúsið í vikulokin og allir bíða spenntir. Var að tjekka á íbúðum til leigu hjá BHM í bænum en allt er fullbókað. Er ekki viss um að við höfum það af að vera hérna í þessum framkvæmdum. En OK, tökum bara einn dag í einu.
Valgeir brá sér í múrarahlutverk og reif af flísarnar í þvottahúsinu, ansi pottþéttur drengurinn með sólgleraugu og eyrnatappa ... :-)

Monday, November 06, 2006

Þakklátir Pólverjar

Um helgina lenti ég í ótrúlegustu ævintýrum. Ég gaf heimilistækin úr eldhúsinu mínu og óskaði eftir smá aðstoð við að henda dóti í Sorpu í staðinn. Til mín hringdi fólk úr öllum áttum og síminn stoppaði ekki alla helgina. Ungt listafólk tók bakaraofninn og helluborðið í nýja sumarbústaðinn sinn, hefði heldur viljað gefa þetta einhverjum öðrum! Ungur laghentur maður kom og hirti uppþvottavélina. Rúsínan í pylsuendanum voru síðan Pólverjar sem fengu ísskápinn sem ég hélt að enginn vildi. Unga fólkið var svona gasalega hrifið, fór með skápinn heim til sín og hann var bara svo sætur þegar hann var kominn inn til þeirra. Í ljós kom að þetta fólk bjó í íbúð í Hlíðunum og vantaði allt í búið. Við gáfum þeim það sem til féll og mikið voru þau þakklát.

Já, ég hef verið að hugsa mikið um þetta fólk og litlu stúlkuna þeirra. Ekki erum við að bjóða þeim uppá glæsilegar aðstæður. Þetta er semsagt fólkið sem er að vinna störfin sem við lítum ekki við. Menn geta bara hírst í kjallaraholu á dýnu með teppi yfir sér. Algjör óþarfi að eiga sófa eða sjónvarp. Og lítla stúlkan, hún getur bara lært á gólfinu. Og svo er maður að velta því fyrir sér hvernig heimilistæki maður eigi að kaupa, Miele eða DiDitrich. Hvort ætli sé betra???