Alfa í netheimum

Thursday, April 24, 2008

Gleðilegt sumarNú er sumarið komið á Fróni. Við mæðginin fórum í skrúðgöngu, svona ekta Kópavogsgöngu sem endaði í Smáranum að venju þar sem Tóti trúður kynnti atriðin. Við hittum sanna Kópavogsbúa í göngunni að venju: Unni dóttur Þórunnar Hjartardóttur, Stebbu Þórunnar systur og slektið þeirra.

Það er heilmikil gerjun í gangi í Hlíðarhjallanum og ungviðið að velta ýmsu fyrir sér varðandi menntunarmöguleika og fleira. Vigdís, heimasætan á bænum er að spá í framhaldsmenntun eftir stúdentsprófið og það er gríðarlega spennandi að vera að klára menntaskóla. Einhvern veginn allir vegir opnir og lífið fullt af möguleikum. En núna erum við allavega að undirbúa veisluna, spá í dress á stúlkuna og fleira. Síðan ætlar Kristín Hlíf Auðardóttir að koma til okkar og vera hjá okkur í sumar. Hún kemur auðvitað í veisluna og fékk meira að segja fríí sínum sænska skóla til þess að gleðjast með frænku sinni.

Nú og svo ætla allir að skella sér til Majorka með Þórunni Hjartardóttur og familíu. Þessar Majorka ferðir eru orðnar að föstum punkti í tilverunni hjá Hlíðarhjallafamilíunni. Og allir hlakka gríðarlega til ...

Monday, March 24, 2008

Svíþjóðarferðin í ár


Við áttum mjög skemmtilega páska fórum til Svíþjóðar og heimsóttum Auði og Roger. Við gistum heima hjá þeim í Huddinge sem er rétt fyrir utan Stokkhólmsborg. Við studdumst við lestarsamgöngur og ferðuðumst fram og til baka um borgina í heila viku. Við fórum á sýningar og söfn og áttum góðar stundir með Auði og familíu. Aðal málið var að skoða Vasaskipið, sögufrækt sænskt skip sem sökk á 17. öld en var grafið upp á sjötta áratugnum, hreinsað og gert að safni. Listasafn var byggt yfir skipið og allt var þetta hið fróðlegasta og flottasta safn. Börnin drukku í sig þekkinguna og það var mjög ánægjulegt hvað þau voru áhugasöm. Eftir Vasaskoðunina þá fórum við í Unibanken sem er svona míníútgáfa af Astrid Lindgren safninu. Það var líka mjög skemmtilegt, sérstaklega atriðið úr Kalla á þakinu. Allt var þetta svo gríðarlega sænskt . Síðan var bara arkað á sýningar og allir með.  Við fórum meðal annars á Andy Warhol sýningu, Tolouse Latreck og sænska náttúrumynjasafnið. Þar skoðuðum við heimsins stærsta kvikmyndahús. Gríðarlega var það skemmtilegt, maður lifði sig algjörlega inní viðfangsefnið og fannst á tímabili að maður væri kominn til Egiptalands að skoða píramídana gömlu.  Og svo skoðuðum við Charles Chaplin sýningu í Menningarhúsinu sænska. Þar voru óborganlegar kvikmyndir Chaplins ásamt ljósmyndum frá ferli hans.  Mikið var síðan gott að fá sér að borða, sænskar pulsur (ojjjj) á skreyttum diski sem ollu mikilli kátínu í annars kúltíveruðu umhverfi Nýlistasafnsins.   

Síðan á föstudeginum langa elduðum við þessa gasalegu frönsku máltíð að hætti Petrínar Rós samkennara Sigmars í MS. Máltíðin hitti í mark og allir voru ánægðir. Jú, og Roger eldaði líka ekta sænskar kjötbollur alveg gómsætar á bragðið.  Hlíðarhjallafamilían átti sína bestu páska í áraraðir.

Friday, January 25, 2008

Ég er orðin amma


Það tilkynnist hér með að ég er orðin amma. Barnið heitir Snót Vigdísardóttir og er 6 vikna gömul. Snót litla er frekar órólegt barn, sífellt vekjandi athygli á sér. Hún hjalar þegar henni er sinnt og vill láta klappa sér. Síðan tekur heilmikinn tíma að sinna henni, gefa henni pela og skipta á henni. Já ömmuhlutverkið er mikið djobb. Vigdís á fullt í fangi með Snót, enda er hún órólegt barn sem þarf mikla umönnun. Hún vakir daga og nætur og ég velti því fyrir mér hvort hún sé nokkuð ofvirk og etv. með athyglisbrest. Það kemur örugglega allt í ljós síðar við nákvæma heilsufarsathugun. Snót er hin laglegasta snót í bleikum barnagalla.

Verst finnst Vigdísi að hún þarf að fara á tölvunámskeið um helgina og þá er spurning hvað eigi að gera við Snót litlu. Ef hú tekur hana með sér þá kannski truflar hún alla Eplanotendurna. Ef amma sinnir henni þá getur Vigdís misst punkta í lífsleiknikúrsinum. Afinn hefur ekkert að gera í allt barnastússið. Hann les bara bækur og er búin að fá nóg af barnauppeldi í bili. Það er því ekkert hægt að treysta á hann. Já, og Vigdís þarf að sofa í öðru herbergi því Snót litla er svo óróleg á nóttunni og amma hennar þarf að ná heilum nætursvefni. Já, svona gengur lífið í Hlíðarhjallanum. Semsagt rífandi stemning og barnalán.

Saturday, October 13, 2007

Boðið í bröns 20. okt.

Í tilefni afmæla okkar Sigmars 19. okt. næstkomandi þá verðum við með opið hús í Hlíðarhjalla 14 laugardaginn 20. okt. næstkomandi kl. 12-15. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Við ætlum að bjóða uppá með súpu, heimabakað brauð og álenska pönnuköku.

Með kveðju:
Alfa og Sigmar

Tuesday, August 28, 2007

"Bara heima"


Af mér er allt gott að frétta. Er komin í veikindafrí og ætla að safna kröftum og verð í læknismeðferð fram að áramótum. Hef það gott heima, en sé samt að það er fullt starf að vera lasinn. Hægt er að hafa nóg fyrir stafni ef maður vill. Hef t.d. farið í yoga í Ljósinu og hitt þar fólk sem er að glíma við veikindi. Síðan er gönguhópur frá Landspítalanum þrisvar í viku í Laugardalnum. Það er mjög fín grúppa sem hittist þar ásamt hjúkrunarfræðingi eða sjúkraþjálfara. Jú, svo er bara að draga andann djúpt og anda að og segja einn og anda frá og segja tveir ... og þá kemur þetta allt saman.

Nú er Valgeir minn fluttur að heiman í námsmannaíbúð og er gasalega ánægður með sig. Mömmu finnst dálítið óþægilegt að geta ekki lengur rassakastast í hans málum, en hann er að spjara sig mjög vel. Íbúðin er lítil og smart einstaklingsíbúð í Grafarvoginum. Hann er bíllaus pilturinn og ætlar að notast við almenningssamgöngur í skólann. Já, bara duglegur drengur.

Saturday, May 19, 2007

Gaman í London

Föstudagurinn 18. maí hófst á trimmi í Hidepark með vinkonu okkar. Síðan tók við brunch á frönskum veitingastað í grenndinni, þar sem við búum í Suður Kengington. Síðan fórum við á stórskemmtilega sýningu í Victoria and Alberts Museum. Sýningin, hét Surrealism and Design og var meiriháttar skemmtileg, alltaf svo mikið líf, gleði og frumlegheit í súrealismanum. Þarna voru verk eftir Miró, Dalí og marga fleiri fræga listamenn. Síðan fórum við á kaffihús og fengum okkur kaffi og kökur. En rúsínan í pysluendanum var leikhúsferð í Victorias Palace Theater á Billy Elliot. Þetta var svo skemmtileg sýning, dans og söngur og dýpt í söguþræði. Kvenfélagskonurnar voru tárvotar á stundum og hrærðar inn að beini. Þarna fléttaðist verkalýðsaga saman við danslist og fleira. Kvöldið endaði á pizzustað með hlátursrokum og tilheyrandi. Okkur líður bara eins og prinsessum í London.

Laugardagurinn var eftirminnilegur. Vinur okkar vildi endilega bjóða okkur í brunch (úff hvað við erum vinsælar) á geggjuðum súsístað í London. Málsverðurinn hófst á því að við fengum litla þvottaklúta sem ekki er frásögufærandi, en þegar þjónarnir settu á okkur servétturnar þá varð mér hugsað til gamla fólksins á Hrafnistu. Já, það er ekkért púkalegt við það að láta setja sig stykki áður en maður nærist. Það er gert á flottustu súsístöðum í London og líka á Hrafnistu.!
Við örkuðum síðan eitthvað í búðir í lok dags, en um kvöldið skyldi aftur fara út að borða!
Það voru endurnærðar Kvenfélagskonur sem fóru síðan heim til sín á Sunnudeginum, búnar að treysta vinarböndin, anda að sér kúltúr og sinna búðarrápi. Gat ekki verið betur heppnað. Kæru vinir í London, innilegar þakkir fyrir okkur.

Thursday, May 17, 2007

Velmegunarkleinur í Lundúnaborg

Kvenfélagskonurnar (sem nú ganga undir nafninu Velmegunarkleinur) eru komnar til London og fengu höfðinglegar móttökur hjá vinum sínum, sem búa í Kensington hverfinu. Þær gista í lúxushúsi á besta stað í borginni og örstutt er í Harrods og fleiri verslanir. Þær hafa uppgötvað að þær eru sko engir meðaljónar sem arka um Oxfordstræti. Nei, þær strauja kortin grimt í dýrustu búðum borgarinnar.

Dagurinn í dag hófst með kraftgöngu í Hide Park ásamt Robbie Williams og Paul McCartney. (Bakhluti Robbies var ansi flottur, Cartneys er aðeins farinn að síga!). Síðan tók við margra klukkustunda morgunverður og undirbúningur fyrir verslunardaginn mikla. Í hádeginu var farið í Harrods og aftur skyldi næra sig hresilega. Kvensurnar rassaköstuðst síðan um alla borg, en þó aðallega Kensington High Street. Um kvöldið var stímað á indverskan veitingastað í grenndinni. Gríðarleg stemning er í ferðinni ...:-)