Alfa í netheimum

Saturday, February 24, 2007

Huggó á Nesinu


Frv. Kristján litli og Aðalsteinn með köttinn Gunnu.


Þetta var mjög fallegur dagur. Við Aðalsteinn fórum og fengum okkur morgunmat í bakaríinu á Dalveginum. Síðan skutluðumst við fram og til baka um höfuðborgarsvæðið og enduðum á Nesinu hjá Gunnhildi og fjölskyldu. Það var vorveður í lofti og vinkonurnar sátu bara úti á palli og prjónuðu. Að venju var mannmargt á bænum og von á 20 manns í mat.

Mikið var skrafað og hlegið. Nú skal blása til utanladsferðar og heimsækja vinkonu okkar í London. Rokurnar ætla að drífa sig og gera víðreist í borginni, fá sér te á Tiffanys og vera nú dálítið kúltúrlegar svona í eitt skipti fyrir öll. Ein kemur alla leiðina frá New York svo það stendur heilmikið til. Nú er bara að hrista af sér allt slen og rífa upp stemninguna ... Þessu má enginn okkar missa af.

Thursday, February 08, 2007

Gaman í leshring

Það er gríðarleg stemning í leshringnum hjá Katrínu. Nú höfum við lokið lestri þriggja íslenskra skáldsagna og þriggja ljóðabóka. Í gær heimsótti okkur Bragi Ólafsson rithöfundur og umræðuefnið var bókin hans "Sendiherrann." Það var mjög ánægjulegt hve konurnar í leshringnum höfðu ólíka upplifun af bókinni. Sumar voru bálreiðar og fúlar yfir því að hafa verið að eyða tíma í þessa bók því hún væri svo hundleiðinleg. Og ein spurði meira að segja hvort maðurinn gæti virkilega lifað af þessum skrifum sínum. Persónurnar væru óintresant og leiðinlegar. Ekkert nema smáatriði, blettur í teppi, líil hneta í vasa og þar fram eftir götum.

Ég var ekki sammála þessu. Mér fannst bókin þrælskemmtileg og gríðarlegur húmor í henni. Sturla Jóni var lýst með húmorískri lýsingu á misheppnuðu ljóðaskáldi sem lifði lífi sinu í gegnum látinn frænda sinn. Hann stal ljóðum frændans og frændinn stal mömmu Sturla Jóns. Aðalpersónan er sannkallaður einfari sem hugsar mest um sjálfan sig, út frá sínum þrönga og snobbaða sjónarhorni þar sem allt þarf að vera svo fínt og kúltíverað á yfirborðinu. Samt er hann bara misheppnað meðaljónaljóðskáld sem starfar sem húsvörður í Reykjavík. Hann á líka fimm börn sem alast upp hjá móður sinni og kaupfélagsstjóra fyrir Austan. Sturla Jón er stöðugt upptekinn af einskys nýtum hlutum eins og blettinum í teppinu á hótelherberginu sem hann reyndi að þurrka með kósettpappír og lítilli lukkuhnetu í frakkavasa sínum. Þetta sagði skáldið að væru vörðurnar í sögunni. Sturla Jón kaupir sér Aquascutum frakka í Sævari Karli áður en hann fer á ljóðahátíðina í Litháen. Frakkinn átti að hlífa honum og veita skjól. Enda enginn smá flík því þetta var Aquascutum frakki. Hann kemst reyndar aldrei á ljóðahátíðina, því hann er svo fullur og misheppnaður allan tímann. Frakka Sturlu Jóns var stolið á kaffihúsi og Sturla gerði sér lítið fyrir og stal öðrum amerískum frakka af Ameríkana. Þetta verður síðan til þess að hann fer ekkert á ljóðahátíðina, og hann flýr alltaf af hólmi. Hann lendir samt á sjens í ferðinni með konu af sama sauðahúsi og í bókarlok skála þau fyrir ferðinni til mömmu hennar í Hvíta-Rússlandi. Hann var ekki alveg ástríðulaus karlinn og það er létt yfir parinu í bókarlok, enda vel hífuð og skálandi. Skáldið upplýsti í gær á fundinum að fleiri bækur væru væntanlegar í seríunni um Sturla Jón. Til dæmis ætlaði hann að skrifa sögu Jóns pabba Sturlu og segja frá því hvað hann var að gera meðan Sturla dvaldi í útlandinu. Mjög spennandi! Já, og síðan myndi maður alveg vilja heyra meira af alkóhólistanum Fanneyju, móður Sturlu Jóns, sem er ansi litríkur karakter. Já, þetta verður kannski bara algjört söksess hjá rithöfindinum eins og Ísfólkið forðum daga.

En á einhver "Í húsi Júlíu" eftir Fríðu Sigurðardóttur? Nú vantar mig hana ...