Alfa í netheimum

Wednesday, August 02, 2006

Gakktu hægt inn um gleðinnar dyr


Nú er Valgeir minn orðinn 19 ára og á leiðinni í skemmtiferð til Spánar með vinum sínum. Það gleymdist að huga að ýmsum smáatriðum eins og að vera með vegabréfið í gildi. Drengurinn þurfti að borga 10.000 kall fyrir hraðþjónustu og þurfti síðan að brenna á bílnum sínum til Njarðvíkur til að sækja vegabréfið. Alveg undarlegt hvað Sýslumannsembættin eru alltaf svifasein með tækninýjungar. Hvers vegna tekur svona marga daga að útvega nýtt vegabréf á tíma upplýsingaaldar og alþjóðavæðingar? Og hvers vegna í alvörunni er þjónustan svona dýr ? - Alþýðukona í Kópavogi er víst ekkert spurð - hún ræður engu.

Hún bara krossar sig í bak og fyrir og vonar að drengurinn komi heill heim að viku liðinni. Strákarnir ætla á "sjóbanana" jetsky, í fallhlífarstökk, teygjustökk og allt nógu kraftmikið, skemmtilegt og hættulegt. Jakkafötin eru komin í ferðatöskuna svona ef það skyldi vera "dresscode" á einhverjum skemmtistöðum. Við höldum okkur fast meðan drengirnir eru í burtu og vonum að allir komist þeir heilir heim. Myndin er af Valgeiri og afa hans á Skrúfudaginn í Fjöltækniskólanum, s.l. vor. Nú er bara að halda sig á brautinni beinu ...