Alfa í netheimum

Thursday, January 18, 2007

Yndislestur með Katrínu

Ég skráði mig í leshring hjá Endurmenntun H.Í. Planið er að lesa rjómann úr jólabókaflóðinu. Fyrsti hittingurinn var í gær og ég var gríðarlega spennt að sjá hverjir myndu mæta. Alveg eins og þegar maður fer í ferðalag og skoðar fólkið sem er að leggja af stað í rútunni. Þetta er alveg það sama, hópurinn er að leggja af stað í leshring. Þarna voru saman komnar um 20 konur á aldrinum 40-60 ára. Já, karlmenn eru víst hættir að lesa bækur var mér sagt.

Fyrsta verkefnið var að lesa bókina Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur. Ég las í einum grænum eins langt og ég komst í bókinni og hélt á fyrsta fundinn. Var ekkert allt of hrifinn af þessari bók, aðalsöguhetjan Gísella finnst mér óintresant kona, leiðinleg, alltaf með víngutl í glasi, lesandi glanstímarit og lifir yfirborðskenndu lífi. Gísella þessi á heima í stóru húsi sem hún erfði um tvítugt, auðvitað er hún einhleyp og barnlaus. En arfurinn sem hún hafði fengið um árið var uppurinn og hún þurfti einhvern veginn að dekka lúxus neysluna sína. Froðukaffið, veitingastaðina og allt það. Hún ákveður að opna hús sitt fyrir þremur konum sem eru í húsnæðisvandræðum og hefst þá sagan. Hún setur húsreglurnar og átti líka að hafa síðasta orðið ef upp kæmi ágreiningur. Mér fannst þessi saga svona frekar mónótónísk og sögupersónan finnst mér grunn og hún þroskast ekki neitt í sögunni. Hún bara versnar í maganum og virðist öll vera á taugum. Allt svona frekar óintresant.

Það kom mér hins vegar mjög á óvart hvað marga fleti var hægt að sjá á þessari sögu og kannski var hún alls ekki leiðinleg þessi bók ef maður rýndi aðeins dýpra. Ein konan í hópnum, Ulla Magnusson, var hörð á þeirri kenningu að húsið hennar Gísellu væri Evrópa og leigjendurnir væru inflytjendurnir. Þar er sífellt verið að setja reglur og segja þessu fólki hvernig það á að haga sér. Það er líka dálítið skrítið hvað Gíslella þessi fer illa með allt hráefni sem hún kemur nálægt í matargerð, en konunum tekst að töfra framm ljúffengar veitingar úr nánast engu. Þetta fannst Ullu allt meika sens ef maður læsi bókina út frá þessari Evróputeoríu. Spennan magnast í bókinni og uppgjör verður óumflúið. Held bara að ég mæli með bókinni, allavega var stórskemmtilegt að spjalla um hana.

Sunday, January 14, 2007

Frú Casual smart

Bauð vinkonum mínum í hnallþórukaffi svona fyrir ekta "júffertur" eins og við erum. Gott að hitta karlana og börnin og við eigum auðvitað að vera miklu duglegri að draga fylgifiskana með. Nú erum við boðnar í stórafmæli um næstu helgi (sjá www.olol.is) og umræðan beindist auðvitað að dresscodinu sem er casual smart. Ella var ekki lengi að finna út úr þessu vandamáli. Hún dreif mig ásamt Þórdísi og Lóu litlu í Smáralindina og við örkuðum um Debenhams svona eins og við værum á raunveruleikaþætti á Skjá einum. Skemmtum okkur líka konunglega. Ella og Þórdís voru stílistarnir en ég viðfangið. Þær rassaköstuðust um alla búð og funndu ótrúlegustu flíkur. Ekki voru þær í vandræðum stúlkurnar. Keypti heilan helling fyrir spottprís og vitið þið - held ég sé orðin casual smart í eitt skipti fyrir öll. Ella og Þórdís takk kærlega fyrir hjálpina - gott að eiga svona góðar vinkonur.